Loforðin

Að strengja áramótaheit er ekki eitthvað sem ég hef gert mikið af í gegnum tíðina. Jú jú, ég hef alveg logið því að sjálfum mér að ég ætlaði að léttast og hætta að reykja en það gleymist yfirleitt fyrir afmælisdaginn minn — sem er í lok janúar.

Eitt áramótaloforð hef ég þó staðið við og það var að bæta stundvísi mína. Það gerði ég fyrir um fimm árum síðan, en fram að því hafði ég verið týpan sem mætti alltaf fimm til tíu mínútur yfir. Að breyta þessu var minna en ekkert mál og enn þann dag í dag er ég almennt stundvís. Ég ákvað hins vegar að hætta á toppnum.

Fyrir þessi áramót var ég margsinnis spurður hvort ég ætlaði að strengja áramótaheit og með yfirlæti svaraði ég ávallt „uhh nei“. Ég ætlaði svo aldeilis ekki að vera í hóp þessara sjálfsagasnauðu smámenna sem lofa sjálfum sér bót og betrun á nýju ári en gefast svo upp undir eins.

Reyndar hefur mér fundist það frekar lummó að strengja áramótaheit. Af hverju þarf að tengja ákvarðanir um eigið daglega líf við einhver alheimstímamót? Getur fólk ekki bara hætt að reykja, éta kokteilsósu og pissa í sturtu að eigin frumkvæði á hvaða árstíma sem er?

Ég ætlaði nú samt að hætta að reykja í janúar. Bara einhvern tímann í janúar, á tíma sem ég ákveddi — ekki einhver páfi á 16. öld. Reyndar er ég hættur að reykja núna og það er bara 3. janúar.

Svo ætlaði ég svo sem líka að byrja að spara og leggja fyrir. Það var reyndar ákveðið fyrir löngu að sá sparnaður hefðist um áramót. Ekkert vegna þess að það væri áramótaheit heldur vegna þess að í nóvember var ég að jafna mig fjárhagslega eftir utanlandsferð og í desember voru jól. 1. janúar hljómaði því tilvalinn.

Og nú er ég byrjaður að spara. Var til dæmis að koma úr Bónus þar sem ég keypti Bónus–haframjöl í stað Sol Gryn og Bónus–pylsur í stað SS. Svo er það bara heimagert sódavatn í SodaStream–tækinu í stað goss (sorrý Palestína). Eftir helgi ætla ég síðan að skrá mig í viðbótarlífeyrissparnað. Já og byrja að koma alltaf með nesti í vinnuna.

Til að spara enn meira þá er kannski ekki óvitlaust að taka mataræðið bara alveg í gegn. Sleppa sælgæti, minnka skammtastærðir og borða hollari mat. Sama hvað hver segir þá er ódýrara að borða hollt en óhollt. Hitt er mýta sem feitabollur bjuggu til sem afsökun fyrir að troða í sig óþverra.

Nú og fyrst ég er byrjaður á þessu þá er alveg eins hægt að fara að hreyfa sig meira. Ég meina, nú þegar ég er hættur að reykja þá get ég hreyft mig án þess að mása og blása. Fullur af orku úr Bónus–haframjölinu og ekki uppþembdur af rándýru aspartamgosi. Ég stefni á að missa sirka þrjú kíló á mánuði út árið.

Svo reyndar ætla ég að vera duglegri við að blogga, drekka sem minnst af áfengi og vaska alltaf upp strax eftir mat. Já og skrifa skáldsögu. Ætla að sitja minnst klukkutíma á dag þar til bókin er reddí.

Ekkert af þessu er samt eiginlegt áramótaheit. Þetta eru bara ákvarðanir sem hittu alveg óvart á áramót. Enda eru áramótaheit fyrir veikgeðja drullusokka sem lifa í blekkingu.

Endurfundir

Ég tel mig nokkuð móttækilegan fyrir nýrri tónlist. Það er hins vegar nánast ómögulegt að fullyrða svona án þess að hljóma eins og miðaldra kall í afneitun. Hvað um það.

Þrátt fyrir að ég rói reglulega á ný mið þá eru nokkrar hljómsveitir og tónlistarmenn sem hafa fylgt mér frá unglingsárunum. Listamenn sem hafa jafnvel lítið breyst frá því í gamla daga. Hjakka í sama farinu, ef maður vill vera harðorður.

Æ ég ætla að bakka með þetta allt. Maður á ekki að þurfa að skrifa inngang í afsakandi tón áður en maður lofar eitthvað sem er manni að skapi. Ég fíla fullt af ó-kúl dóti og auðvitað er þér alveg sama.

Bloodstone & DiamondsBandaríska þungarokkssveitin Machine Head er eitt af þessum lúðalegu fyrirbærum sem ég get ekki fyrir mitt litla líf sagt skilið við. Jafnvel þó að sveitin hafi ekki hreyft við mér síðan ég var í menntaskóla. Mér þykir vænt um þessa menn og skoða útgáfur þeirra þegar ég rekst á þær.

Nýjasta plata Machine Head, Bloodstone & Diamonds, kom út í síðustu viku. Hún er númer átta í röðinni og mér reiknaðist svo til að hún yrði sú fimmta í röð sem mér þætti léleg. Eða allavega undir meðallagi.

Það var áður en ég ýtti á play.

Heyrðu, svo er hún bara svona ljómandi fín. Þetta er fagmannlega spilað og samið þungarokk. Svei mér þá ef það örlar ekki á spilagleði í þetta sinn. Machine Head eru hættir að reyna að vera eitthvað sem þeir eru ekki. Núna einbeita þeir sé að því að gera það sem þeir gera best: Að vera Machine Head.

Burn My EyesBurn My Eyes, fyrsta plata sveitarinnar, er ein af nokkrum sem ýttu mér út á braut hins níðþunga rokks á unglingsárunum. Ég hafði ekki efni á henni þegar ég heyrði hana fyrst en dó þó ekki ráðalaus.

Heimsóknum mínum í Japis fjölgaði og alltaf fékk ég góðfúslegt leyfi starfsmanna til þess að renna nokkrum lögum í gegnum litla Discman-inn til hliðar við afgreiðsluborðið. Nokkrum vikum síðar varð platan mín.

Bloodstone & Diamonds minnir mig stundum á Burn My Eyes. Tvíraddaði gítarinn sem Machine Head tóku ástfóstri við síðar á ferlinum er enn til staðar, en í þetta sinn hafa Robb Flynn og félagar tekið ríflega út úr riffabankanum líka. Einn og einn kveifarlegur millikafli innan um þrusuþétt þungarokkið truflar mig lítið.

Þetta er ekki plötudómur. Ég hef ekki hlustað nógu oft á plötuna. Þetta eru bara fyrstu viðbrögð. En allavega, í fyrsta sinn á þessari öld eru Machine Head á matseðlinum mínum.

Það finnst mér gaman.

Einn, tveir og byrja

Hæ.

Þetta er ekki fyrsta bloggsíðan sem ég stofna. Langt því frá. Reglulega hef ég búið til bloggsíður og það er ekkert sem bendir til þess að Skvaldur verði ekki ein af þessum sem verða óvirkar á endanum og rykfalla að eilífu í kústaskáp internetsins.

En það þýðir ekki að ég geti ekki rausað hér á meðan ég nenni því. Enda hef ég afskaplega gaman af því að rausa. Og þess vegna heitir síðan Skvaldur. Þó að tæknilega séð geti einn maður tæplega skvaldrað. Síðan gæti mögulega heitið eitthvað annað. Til dæmis Raus, Mas, Tuð, Kvabb eða Röfl. En Skvaldur var laust, inniheldur ekki íslenska stafi og er skemmtilegt orð.

Ólíkt síðustu bloggsíðu sem ég stofnaði ætla ég ekki að sérhæfa Skvaldur neitt. Fókusinn verður eflaust á hinar ýmsu menningarafurðir, lágmenningu að mestu, en finni ég skyndilega hjá mér þörf fyrir að frussuræpa yfir Framsóknarflokkinn eða deila með ykkur kökuuppskrift mun ég ekki hika við að gera það hér. Ég lofa samt að vera eins skemmtilegur og ég er fær um hverju sinni.

Bæ.