Loforðin

Að strengja áramótaheit er ekki eitthvað sem ég hef gert mikið af í gegnum tíðina. Jú jú, ég hef alveg logið því að sjálfum mér að ég ætlaði að léttast og hætta að reykja en það gleymist yfirleitt fyrir afmælisdaginn minn — sem er í lok janúar.

Eitt áramótaloforð hef ég þó staðið við og það var að bæta stundvísi mína. Það gerði ég fyrir um fimm árum síðan, en fram að því hafði ég verið týpan sem mætti alltaf fimm til tíu mínútur yfir. Að breyta þessu var minna en ekkert mál og enn þann dag í dag er ég almennt stundvís. Ég ákvað hins vegar að hætta á toppnum.

Fyrir þessi áramót var ég margsinnis spurður hvort ég ætlaði að strengja áramótaheit og með yfirlæti svaraði ég ávallt „uhh nei“. Ég ætlaði svo aldeilis ekki að vera í hóp þessara sjálfsagasnauðu smámenna sem lofa sjálfum sér bót og betrun á nýju ári en gefast svo upp undir eins.

Reyndar hefur mér fundist það frekar lummó að strengja áramótaheit. Af hverju þarf að tengja ákvarðanir um eigið daglega líf við einhver alheimstímamót? Getur fólk ekki bara hætt að reykja, éta kokteilsósu og pissa í sturtu að eigin frumkvæði á hvaða árstíma sem er?

Ég ætlaði nú samt að hætta að reykja í janúar. Bara einhvern tímann í janúar, á tíma sem ég ákveddi — ekki einhver páfi á 16. öld. Reyndar er ég hættur að reykja núna og það er bara 3. janúar.

Svo ætlaði ég svo sem líka að byrja að spara og leggja fyrir. Það var reyndar ákveðið fyrir löngu að sá sparnaður hefðist um áramót. Ekkert vegna þess að það væri áramótaheit heldur vegna þess að í nóvember var ég að jafna mig fjárhagslega eftir utanlandsferð og í desember voru jól. 1. janúar hljómaði því tilvalinn.

Og nú er ég byrjaður að spara. Var til dæmis að koma úr Bónus þar sem ég keypti Bónus–haframjöl í stað Sol Gryn og Bónus–pylsur í stað SS. Svo er það bara heimagert sódavatn í SodaStream–tækinu í stað goss (sorrý Palestína). Eftir helgi ætla ég síðan að skrá mig í viðbótarlífeyrissparnað. Já og byrja að koma alltaf með nesti í vinnuna.

Til að spara enn meira þá er kannski ekki óvitlaust að taka mataræðið bara alveg í gegn. Sleppa sælgæti, minnka skammtastærðir og borða hollari mat. Sama hvað hver segir þá er ódýrara að borða hollt en óhollt. Hitt er mýta sem feitabollur bjuggu til sem afsökun fyrir að troða í sig óþverra.

Nú og fyrst ég er byrjaður á þessu þá er alveg eins hægt að fara að hreyfa sig meira. Ég meina, nú þegar ég er hættur að reykja þá get ég hreyft mig án þess að mása og blása. Fullur af orku úr Bónus–haframjölinu og ekki uppþembdur af rándýru aspartamgosi. Ég stefni á að missa sirka þrjú kíló á mánuði út árið.

Svo reyndar ætla ég að vera duglegri við að blogga, drekka sem minnst af áfengi og vaska alltaf upp strax eftir mat. Já og skrifa skáldsögu. Ætla að sitja minnst klukkutíma á dag þar til bókin er reddí.

Ekkert af þessu er samt eiginlegt áramótaheit. Þetta eru bara ákvarðanir sem hittu alveg óvart á áramót. Enda eru áramótaheit fyrir veikgeðja drullusokka sem lifa í blekkingu.